UM FARICE

Úrdáttur úr sögu netsins

Umferð og helstu mílusteinar

Á Vísindavef Háskólans er ágætis yfirlit yfir sögu internetsins á Íslandi sem Maríus Ólafsson hefur tekið saman.

Upphaf Internetsins má rekja til Arpanetsins sem ræst var árið 1969 með 7 tengdum háskólum og stofnunum. Fyrsta skeytið var sent 29. október 1969.  Notaður var NCP samskiptaháttur (Network Control Protocol)  forveri TCP samskiptaháttarins.  NCP  notaði 8 bita í vistfang sem þýðir að hönnuðir þess töldu ekki líklegt að fleiri en 255 stöðvar myndi tengjast þessu neti í langri framtíð þess.  Árið 1973 tengdist Arpanet fyrst út fyrir Bandaríkin og varð NORSAR rannsóknarstöðin í Noregi fyrst fyrir valinu.  Fyrsta skeytið yfir Atlantshafið um þetta net mun hafa innihaldið ósk um að aðili ætti að koma með rakvél til Noregs sem hafði gleymst.  Það kom sem sagt snemma í ljós að skeytasendingar í Arpaneti voru mikið notaðar undir persónuleg mál en ekki bara vegna vísindalegs samstarfs háskóla og stofnana sem var jú það sem dreif verkefnið upphaflega af stað, sem var að að tengja vísindasamfélagið saman. Hér er saga internetsins til að mynda vel skráð.

Það hefur verið ríkjandi sú skoðun að Arpanetið hafi verið hannað til að búa til net sem stæðist gæti kjarnorkuárás.  Þetta hefur verið borðið til baka í seinni tíð og staðfest af verkefnisstjóra Arpanetsins við greinarhöfund.  Það hefur hins vegar komið í ljós til að mynda við árásirnar í september 2001 að Internet tæknin stendur sig afar vel við stór útföll.   Símasamband var meira og minna lamað um hríð víða í Bandaríkjunum en Internetið stóðst áhlaupið.

Ísland tengist við útlönd um pakkanet árið 1985 með UUCP tengingu sem var pakkasamskiptastaðall fyrir Unix tölvur.  Árið 1989 er fyrsta TCP/IP tengingin  við útlönd sett upp og er hraði hennar 9,6kb/s. Þessi samskipti voru um jarðstöðina Skyggni um gervihnött með um 500 msek. umferðartöf.  Nú 27 árum síðar er gaman að skoða þessar tölur og reyna að setja þær í samhengi.  Frá 1986 til 2015 eykst flutningsgeta Internetsins við útlönd um 16,5 milljón falt.  Þetta samsvarar 90% vexti á ári eða næstum því tvöföldun á ári.  Heldur hefur hægt á þessum vexti sem eðlilegt er en hann er engu að síður mikill eða um 30% á ári á að giska.

Fyrir 1995 var Intís eini aðilinn sem bauð uppá Internet samband við útlönd. Intís er sprottið uppúr háskólasamfélaginu eins og títt var með fyrstu Internetgáttir margra landa.  Á þessum tíma var veraldarvefurinn (WWW) að breiðast út meðal almennings enda í boði vefrápari frá Netscape sem náði hraðri útbreðslu.  Landsími Íslands nú Síminn hóf að veita Internet þjónustu og tók í notkun 1 Mb/s samband til útlanda í október 1995.  Intís hafði verið með 256 kb/s samband fram eftir ári 1995 en í september 1995 stækkaði Intís í 1 Mb/s og því var heildarinternet samband Íslands við útlönd 2 Mb/s um áramótin 1995/1996.  Það sem gerði þetta kleyft var vitaskuld hinn nýi sæstrengur Cantat-3. Ári síðar var Intís komið með 4 Mb/s og Landsíminn 2 Mb/s samtals 6 Mb/s.  Í maí 1998 er heildarsambandið komið í 10 Mb/s. Fjör færist í leikinn þegar Íslandssími hefur starfsemi og tekur í notkun 2x34 Mb/s í apríl árið 2000 og Intís tekur í notkun heil 45 Mb/s á svipuðum tíma. Þá var heildarsamband við útlönd komið í 139 Mb/s að mestu vegna Internets.  Talsímasambönd sem byggð voru upp með 2 Mb/s samböndum voru í viðbót um 20-30 Mb/s.  Lína.net sem stofnuð var árið 1999  af Orkuveitunni  til að leggja ljósleiðara um Reykjavík tók  að leigu útlandasamband í júní 2000 sem var 45 Mb/s. Fyrst og fremst var það ætlað til að þjónusta TAL sem var farsímafyrirtæki en hafði nýlega keypt Islandia Internetþjónustu.  Kanadíska fyrirtækið Teleglobee sem átti hlut í Cantat-3 var sá aðili sem seldi eða leigði Íslendingum þessi sambönd en Landsíminn átti sín eigin 155 + 45 Mb/s sambönd í Cantat-3.  Skömmu síðar eða árið 2001 keypti Íslandssími (nú Vodafone)  Intís og má þar með segja að Internetið hafi færst frá háskólaumhverfinu endanlega. Samkeppnin var hörð og um tíma var offramboð á útlandabandvídd en ADSL væðing samhliða jók notkunina. Framboðið helst nokkuð stöðugt fram í maí 2002 og er þá heildarsambandið stækkað úr 228 Mb/s í 310 Mbs. Útlandasambönd ná síðan 1 Gb/s í febrúar 2005.  Hér má sjá graf af þessari þróun.   

Í þessu samhengi má rifja upp að Cantat-3 hafði heildarflutningsgetu 2,5 Gb/s til Evrópu og 2,5Gb/s til Bandaríkjanna en sú flutningsgeta stóð alls ekki Íslendingum einum til boða.  Ljóst var því árið 2005 að Cantat-3 myndi ekki duga mörg ár í viðbót ef anna ætti þörfum Íslands sómasamlega.

Til að skoða þróun útlandasambanda yfir árin 1995 til 2015 er best að breyta Y ás í log-skala þar sem vöxturinn er veldisvöxtur. Á myndinni fyrir neðan  má sjá  hvernig vöxturinn verður nokkurn veginn bein lína með þessari framsetningu. Greina má að örlítið hægir á vextinum eftir því sem fram líður sem er eðlilegt þegar internetið er komið í almenna notkun,  hraðar tengingar orðnar almennar og internetið orðið daglegur hluti í lífi fólks. Nú orðið er vöxturinn drifinn áfram af sjónvarpsefni (video) sem verður sífellt betra að gæðum og krefst æ hærri bitahraða.


Við sjáum á myndinni fyrir ofan að það hleypur kippur í vöxtinn árið 1999. Það ár voru fjarskipti gefin frjáls í fastlínu og mikið fjárfest í kringum internetið. Segja má að hér megi einnig sjá örlítil ummerki Internet bólunnar sem var um aldamótin í heiminum almennt.  Á þessum tíma var þó nokkur umframgeta um tíma þannig að hnykkurinn endurspeglar ekki raunverulega notkun. 

Myndin hér að ofan inniheldur ekki gagnaveraflutningsgetuna sem hefur verið stöðugt vaxandi frá árinu 2010 og er árið 2016 orðin meiri en notkun íslendinga og íslenskra fyrirtækja.  Notkun gagnaveranna er umferð sem er ný viðskipti fyrir Farice og Ísland þannig séð og ber að skoða sérstaklega þar sem hún er ekki drifin áfram af neyslu Íslands eða Íslendinga.