UM FARICE

  • Dunnet-Bay-Landing-01
  • Cable-Station-Dunnet-Bay
  • FARICE-1-2004

Saga fyrirtækisins

frá stofnun til dagsins í dag

Farice ehf var stofnað formlega í nóvember 2002 af nokkrum fjarskiptafyrirtækjum á Íslandi og í Færeyjum. Íslenska ríkið tók einnig þátt í stofnun fyrirtæksins.  Hlutur Íslenskra aðila var 80% en Færeyinga 20%.  Stofnfundur félagsins var haldinn 12. september 2002. Tilgangur fyrirtæksins var að leggja sæstreng sem síðar fékk nafnið FARICE-1 (sæstrengurinn skrifaður með hástöfum til aðgreiningar frá fyrirtækisheitinu) sem lagður var sumarið 2003 og fór formlega í rekstur í janúar 2004. Fimm árum síðar lagði fyrirtækið DANICE sæstrenginn til Danmerkur. Fyrirtækið sem fær nafn sitt af Færeyjum (Faroe Islands) og Íslandi (Iceland)  er nú langstærsti aðilinn í sölu á samböndum milli Íslands og útlanda.  Viðskiptavinir eru fjarskiptafyrirtæki hverskonar og stærri viðskiptavinir gagnavera. Farice ehf starfar þannig á heildsölumarkaði þegar kemur að íslenska markaðnum. Fyrsti framkvæmdastjóri félagsins var Guðmundur Gunnarsson sem var ráðinn inn í september 2003 og starfandi stjórnarformaður var Jón Birgir Jónsson.

FARICE-1 strengur (2003-2004)

Ísland var einungis með einn sæstreng  CANTAT-3 tengdan landinu árið 2002 þegar fyrirtækið Farice hf var stofnað. Til vara voru gervihnattasambönd sem lá fyrir að  réðu ekki  lengur við þann gagnahraða sem landsmenn þurftu né fullnægðu kröfum um flutningsseinkun.   CANTAT-3 fór í rekstur 1994 og var fyrsti og jafnframt síðasti atlantshafsstrengurinn sem notaði SDH tækni og var með rafmögnurum á leiðinni í stað ljósmagnara  (erbium doped amplifiers using DWDM) sem eru nú allsráðandi og komu fram á sjónarsviðið 1998-1999. Sú aðferð er í grundvallatriðum enn notuð á sama hátt og var bylting sem gerði rafmagnara úrelta.

Síminn hafði   hafið undirbúningsvinnu að nýjum sæstreng árið 2000 einir og sér.  Í því skyni að fá fleiri hagsmunaaðila að verkefninu var PWC Consulting (PriceWaterHouseCoopers) fengið til að verkefnastýra undirbúningi. Hugmyndin var kynnt á almennum fundi þann 28.  júní  2002 sem lauk með stofnun félagsins eins og áður sagði í nóvember 2002.  Nýi strengurinn sem fékk nafnið FARICE-1 var lagður frá Seyðisfirði á Íslandi til Dunnet Bay í Skotlandi með aukagrein til Funningsfjarðar í Færeyjum (annað ljósleiðarapar af tveimur). Þetta var fyrsti sæstrengurinn sem var lagður frá Íslandi sem var meirihlutaeigu innlendra aðila þrátt fyrir að vera fjórði sæstrengurinn frá upphafi.  FARICE-1 sæstrengurinn var formlega opnaður í janúar 2004. Upphafleg hönnun gerði ráð fyrir að þetta væri strengur með 2x360 Gb/s hámarksflutningsgetu. Upphafleg virkjuð bandvídd var 2x10Gb/sfrá Íslandi til Dunnet Bay.  Það má til gamans geta þess að notkunin árið 2016 þýðir að um 50% af upphaflegri flutningsgetu FARICE-1 væri virkjuð og seld flutningsgeta um 1/3 af heildargetunni.  Miklar framfarir í ljósleiðaraendabúnaði síðan 2003 hafa hins vegar margfaldað getu FARICE-1 og lengt líftíma strengsins um mörg ár í viðbót.  Strengur eins og FARICE-1 er hannaður til að lifa í 25 ár, þ.e.a.s engineering life time. Í upphafi voru afhendingarstaðir þjónustu annars vegar í Múlastöð  Reykjavík (Suðurlandsbraut 28) og í Edinborg ( Scolocate). Fyrstu samningar til íslenskra fjarskiptafélaga voru um 800 Mb/s árið 2004 samtals sem árið 2016 er eins og hraðasta heimilistenging. Árið 2005 var ákveðið að afhendingarstaður yrði í London en ekki Edinborg og var samið við fyrirtækið Telehouse um aðstöðu.

Lengd FARICE-1 á beinni leið til Skotlands er 1205 km. Frá strengnum liggur 200 km leið til Færeyja og er unnt að tengjast honum í Þórshöfn.  Framleiðandi er Pirelli  en endabúnaður kom frá TYCO nú Subcom.  Núverandi framleiðandi endabúnaðar er CIENA.  Nafn strengsins FARICE-1 bendir til þess að áform hafi verið uppi um að byggja FARICE-2, þ.e.a.s. annan streng með viðkomu í Færeyjum.  Það varð ekki úr og Færeyingar byggðu árið 2008  eigin streng  (SHEFA-2) með viðkomu í Hjaltlandseyjum og Okneyjum  til Banff í Skotlandi. Rekstur SHEFA-2 hefur ekki verið áfallalaus og ítrekað slitnað, einkum vegna fiskveiða. Hafa Færeyingar þurft að endurbæta útfærslu hans síðar.


Sæstrengurinn DANICE (2009) og Greenland Connect (2009)

Í janúar 2007 hófst formlegur undirbúningur að næsta sæstreng Íslendinga að tilstuðlan Samgönguráðuneytisins nú Innanríkisráðuneyti. Skipaður var stýrihópur og verkefnisstjóri ráðinn til verksins.  Ítrekaðar bilanir í CANTAT-3 og fyrirséður skortur á flutningsgetu hans ásamt auknum kröfum íslenska samfélagsins til áreiðanlegra gagnatenginga kallaði á úrbætur. Árið var 2007 og mikill uppgangur í þjóðfélaginu og útrás banka og annara fyrirtækja í gangi.   Á sama tíma var komið í umræðuna að Ísland gæti verið heppilegur staður fyrir alþjóðleg gagnaver.  Eftir að nokkrar tillögur að leiðarvali  lágu fyrir í skýrslu í apríl 2007 hófst næsti fasi verkefnisins á þann hátt að fyrirtækið Farice ehf tók formlega yfir verkefnið eða réttara sagt fyrirtækið E-Farice ehf sem var eignarhaldsfélag íslensku eigendanna að Farice ehf.   Skoðaðir voru lendingarstaðir á Írlandi, Bretlandi, Hollandi, þýskalandi og Danmörku. Nýjar áherslur í leiðarvali þar sem lögð var áhersla á að tengjast beint við meginlandið urðu til þess að Blaabjerg nálægt Nörre Nebel Í Danmörku var valinn sem lendingastaður.    Kapallendingarstöðin sem notuð er þjónaði CANTAT-3 (1994) og þjónar reyndar enn þar sem CANTAT-3 hefur fengið nýtt hlutverk við að þjóna olíuborpöllum. Nýi strengurinn sem fékk nafnið DANICE tók við af CANTAT-3 á Íslandi þegar hann fór í rekstur haustið 2009 enda afkastageta CANTAT-3 sem var 2x2,5 Gb/s orðin alltof lítil.   

DANICE liggur frá áðurnefndum stað í Danmörku til suðurstrandar Íslands, rétt vestan við Vestmannaeyjar í Landeyjar (Hallgeirsey).  Lendingarstaður var valinn með tilliti til lágmörkunar á áhættu í ljósi þess hvar fyrri strengur nam landi á Austfjörðum.  Var staðsetning vandlega valin í samstarfi við jarðvísindamenn og útgerðafélög.  Það þótti einnig nauðsynlegt að færa hann nokkuð vestan  megin við Markárfljót og einnig má sjá strenginn taka beygju til vesturs áður en hann tekur stefnuna í austurátt.  Þetta var til að minnka hættu sem að t.d. Kötlugos getur valdið vegna botnskriða.  Strengurinn er 2304 km langur og er því nálægt tvöfalt lengri en FARICE-1.  Hann er útbúinn 4 ljósleiðarapörum.  Upphafleg hámarksflutningsgeta strengsins var 5120 Gb/s (5,1 Tb/s) og í upphafi voru 10x10Gb/s virkjuð. Endabúnaður sem var frá Subcom hefur verið skipt út fyrir nýrri kynslóð búnaðar frá CIENA. Strengurinn er stækkaður nú í skrefunum 1x100 Gb/s sem er svokölluð bylgjulengd sem tekur 50GHz í tíðnirófi ljóss.

Lagning DANICE hófst í ágúst 2008 en ekki náðist að klára lagningu vegna erfiðra haustveðra. Var því lagningu frestað fram á sumarið 2009.  Um svipað leiti og  DANICE var lagður var Greenland Connect strengurinn lagður til Grænlands og þaðan til Kanada.  Hann er í eigu Tele Greenland.  DANICE strengurinn er einskonar framlenging á Greenland Connect til Evrópu og samnýta strengirnir sömu kapallendingarstöð við Landeyjasand.

Ekki þarf að fjölyrða mikið um það að tímasetning á DANICE lagningu kom á versta tíma séð frá sjónarhóli fjármögnunar.  Það tókst að lokum að fjármagna strenginn og hann var lagður í verstu fjármálakreppu sögunnar. Ytra umhverfi var fyrirtækinu Farice einkar óhagfellt um það leiti sem strengurinn fór í rekstur. 

Þróun í vöruframboði og þjónustu

Farice hefur hægt og bítandi styrkt vöruframboð sitt og endurbætt nethögun í því skyni að auka áreiðanleikann.   Í upphafi veitti Farice þjónustu á Bretlandseyjum út frá Edinborg en ákvað árið 2006 að framlengja netið til London (Telehouse).  Á fyrstu árum rekstrar kom í ljós að landleiðin í Skotlandi sem var framhald af FARICE-1 var langt frá því  nægilega áreiðanleg og því var árið árið 2007 brugðið á það ráð að tvöfalda leiðina til UK-backhaulLondon þ.e.a.s. landleiðirnar fóru  ólíkar og aðgreindar leiðir til London. Sú breyting hefur hefur styrkt leiðina til London umtalsvert.  Árið 2019 styrktust leiðir í Bretlandi enn meir þegar samið var nýjan birgja um leiðir ti London og eru fjórar mögulegar leiðir í boði og tvær aðskildar frá landtökustað og yfir nyrsta hluta Skotlands. Einnig var tekinn í notkun nýr afhendingarstaður í Slough fyrir utan London sem eykur afhendingaröryggið. Leiðir um sæstrenginn DANICE (2009)  til Kaupmannahafnar og Amsterdam fara nú einnig um tvær aðskildar landleiðir.  Farice hefur undanfarin ár einnig bætt við afhendingarstöðum sem bæði eykur áreiðanleika og styrkir vöruframboðið.  Sem dæmi um nýja afhendingarstaði þjónustu á Íslandi má nefna Verne gagnaverið við Ásbrú og Thor-Advania gagnaverið Steinhellu Hafnarfirði.  Erlendis hafa síðan bæst við afhendingarstaðir í Frankfurt, Amsterdam og Hamborg og í Slough vestur af London eins og áður sagði.

Farice hefur stutt dyggilega við uppbyggingu gagnaveraiðnaðarins á Íslandi.  Uppbygging netsins og þjónustuframboð tekur tillit til þarfa þessa nýja iðnaðar.  Segja má að upphafið hvað þetta varðar hafi verið árið 2010 þegar fyrirtækið Opera Software ASA ákvað að setja upp búnað í THOR gagnaverinu. Nú þegar þetta er ritað árið  2020 er þessi iðnaður farinn að skipta töluverðu máli í tekjumyndun Farice. Hann skapar atvinnu fyrir fjölda manns og er góð viðbót við raforkusölu á Íslandi sem var metin um 150 MW í byrjun árs 2020.  Farice og orkufyrirtækin hafa þannig mikinn hag af hvort öðru og vinna þétt saman.  Gagnaveraiðnaðurinn kemur íslenskum viðskiptavinum Farice einnig til góða því framlegð af þessari starfsemi auðveldar Farice að lækka verð á þjónustu sinni innanlands.  Annar ávinningur er hin mikla bandvíddarþörf gagnaveranna sem leiðir til aukinna hagkvæmni í innkaupum.  Ljóst er að meira en næg bandvídd er til staðar fyrir íslenska neytendur sem endurspeglast í vöruframboði íslenskra fjarskiptafyrirtækja.

Farice hóf starfsemi sína (2004) með því að bjóða SDH þjónustur, eins og STM-1 (155 Mbs) og STM-4 (622 Mb/s). Þessi þjónusta er enn í boði og verður einhver ár í viðbót.  Fljótlega fór Farice að bjóða Ethernet þjónustu yfir SDH kerfið.  SDH kerfið býður uppá svokallaða verndun þar sem sambönd eru send nýjar leiðir ef aðallaleið bilar. Næsta skref í framhaldi af SDH var að bjóða svokallaðar bylgjur en það er þjónusta sem kallast gjarnan DWDM (Dense Wavelength Division Multiplexing). Í fyrstu voru þetta 2,5G sambönd en síðar fóru stærstu viðskiptavinir að kaupa 10G sambönd.   Fyrsta 10G DWDM sambandið var afhent árið 2009 til Nordunet fyrir íslenska rannsókna- og háskólanetið og endaði það samband í Kaupmannahöfn. 10G eða 10 Gigabitar á sekúndu var þá  grunnsambandeða lágmarksstærð  í sæstrengjunum og stærri landkerfum.  Landkerfin á Íslandi og í Bretlandi voru uppfærð í 10G kerfi á árunum 2008-2009.   Árið 2013 hófst uppfærsla á grunnkerfum Farice þegar innleiddar voru 100Gb/s bylgjur á sæstrengjum Farice sem einnig voru fluttar innanlands á því formi. Þetta var í samræmi við almenna tækniþróun erlendis og um leið jók þetta heildargetu kerfisins talsvert og þar með lengdi í líftíma sæstrengjanna út  frá sjónarhóli flutningsgetu.  Með þessu er einnig verið að segja að flutningsgetan er aukin í 100Gb/s skrefum í kerfum Farice og er hvert skref ákveðin fjárfesting.   Landleiðir erlendis eru enn byggðar uppá 10G flutningi.  100G bylgjur Farice eru þannig bútaðar niður í 10x10G sambönd til áframhaldandi flutnings.   Þetta er fyrst og fremst af hagkvæmniástæðum frekar en tæknilegum ástæðum. Árið 2019 fengu fyrstu viðskiptavinir afhendar síðan þjónustur með 100G sniði. Þessir viðskiptavinir eru erlendir aðilar í gagnverum.

Árið 2012 hóf  Farice að bjóða Internet þjónustu fyrir stærri aðila.  Á ensku nefnist þetta Internet Transit þjónusta eða umflutningur internet umferðar.  Þetta er fyrir viðskiptavini sem hafa eigið AS númer og geta tengst um BGP. Notendur eru gagnaveraviðskiptavinir og fjarskipta- og netfyrirtæki á Íslandi. Þjónustan byggir á IP/MPLS búnaði frá Cisco sem einnig býður möguleika á Ethernet samböndum sem Farice nefnir EWS (Ethernet Wire Services).  Hér er um sveigjanlega þjónustu sem hægt og sígandi tekur við af SDH þjónustunni og hentar einnig smærri aðilum sem ekki eru komnir í þá stærð að geta keypt nokkur 10G sambönd. Þessar svokölluðu IP/MPLS þjónustur fóru í gang árið 2012 og hafa gengið vel og kerfið hefur reynst mjög áreiðanlegt.  Árið 2020 hófst innleiðing á nýju Ethernet kerfi frá Nokia sem einnig getur veitt STM-1 og STM-4 þjónustur sem enn eru notaðar.

Stöðugur vöxtur í umferð

Á árunum 2004 til 2012 jókst seld bandvídd úr 930 Mb/s í 190 Gb/s sem er um 200 földun. Þetta samsvarar árlegum vexti uppá 80% á einum streng en 96% í heildina  sem skýrist jú af því að félagið hefur rekið tvo sæstrengi frá árinu 2009. Raunaukning notkunar á Íslandi hefur heldur róast í samræmi við þróun erlendis hin síðari ár en er þó einhverstaðar á bilinu 20-40% á ári.  Vöxturinn hjá Farice einnig mikið til drifinn af gagnaveraviðskiptavinum. Árið 2019 er keypt bandvídd komin yfir 600 Gb/s og fer meira en 50% til gagnaveranna.  Undir lok árs 2020 er heildarbandvíddarsala komin  vel yfir  1 Terabit á sekúndur sem samsvarar 1000 Gigabitum. 

Einingaverð lækka samhliða miklum vexti

Tekjur Farice hafa þó ekki  hækkað í samræmi við þessa magnaukningu og má segja að þær séu svona nokkuð stöðugar til lengri tíma litið þótt greina megi árlega aukningu síðustu árin eftir mögur ár 2010-2013.  Aukning tekna kemur nú árið 2016 að mestu frá gagnaverum sem eru viðskiptavinir erlendis frá.  Það er heilmikil áskorun fyrir Farice að geta annað aukinni bandvíddarþörf án þess að auka kostnað viðskiptavina. Sem dæmi má taka STM-1 (155 Mb/s)  þjónustuna sem lækkaði um 96% frá 2004 til 2012. Með öðrum orðum þá kostar STM-1 þjónusta 17 sinnum minna árið 2012 en árið 2004. Þetta samsvarar árlegri meðallækkun um 30% á þessu tímabili.  Á milli áranna 2012 og 2016 hefur verð á STM-1 lækkað um hlutfallið 3,65 sem samsvarar árlegri 38% meðallækkun.  Þannig má reikna út að á  milli 2004 og 2016 hefur Farice lækkað verð á STM-1 sambandi  62 falt.
Nú orðið er STM-1 ekki lengur það viðmið  sem notað er um einingaverð Farice.  Það var hinsvegar svo  lengi vel.  Nú hefur 10G þjónustan  tekið við.  Verð á pari af 10G samböndum með vörn í Bretlandi hefur lækkað um margfaldarann 2,8 frá árinu 2012 eða að jafnaði um 30% á ári.    
Allir útreikningar miða við verð í Evrum en það er sú mynt sem Farice gerir upp í og verðleggur þjónustu sína í.  Þegar íslenska krónan styrkist gagnvart Evru þá njóta viðskptavinir Farice þess eins og gerst hefur á árinu 2017 sérstaklega.

Áreiðanleiki eykst

Fyrir haustið 2009 mátti Ísland reiða sig á CANTAT-3 strenginn ásamt FARICE-1.  Síðan þá hefur áreiðanleiki tenginga við útlönd tekið stakkaskiptum.  CANTAT-3 var ekki áreiðanlegur strengur og slitnaði að meðaltali oftar en einu sinni á ári.  Bretlandsleiðir FARICE-1 voru einnig óáreiðanlegar frá 2004 til 2007 og mátti ekki miklu muna að Ísland yrði algjörlega sambandslaust eins og raunin varð í ágúst 2002. DANICE strengurinn og FARICE-1 strengirnir hafa staðið sig mun betur og hafa aldrei slitnað eða orðið fyrir hnjaski (skrifað í ágúst 2020) sem er einkar ánægjuleg staðreynd. Samhliða þessu hafa landleiðir verið tvöfaldaðar erlendis.  Ísland hefur verið með 100% uppitíma , þ.e.a.s. aldrei misst algjörlega samband, við útlönd síðan 2004 og við vonum auðvitað  að sú tölfræði haldi áfram næstu árin í sama horfnu.  Farice bauð Grænlendingum uppá samstarf árið 2007 sem leiddi til þess að fyrsti sæstrengurinn sem tengdi Grænland við umheiminn kom að landi á Íslandi (2009) og tengir Farice Grænland áfram til Evrópu um sín kerfi.  Grænlenski strengurinn heldur áfram til Kanada með þjónustu til New York og má því að segja að Ísland sé þrítengt til útlanda. Þrítenging er forsenda þess að segja að áreiðanleiki útlandasambanda sé fimm níur eða 99,999%.  Áreiðanleiki grænlenska strengsins hefur hins vegar valdið vonbrigðum.

Nýir sæstrengir ?

Elsti strengur Farice, FARICE-1 á mörg ár eftir í nýtingu hvað varðar bæti flutningsgetu og endingu almennt.  Strengir sem þessi eru hannaðir til að lifa a.m.k. í 25 ár sem þýðir að hann á að geta lifað til ársins 2028.  Sagan hefur hins vegar sýnt að ávallt eru komnir nýir og hagkvæmari strengir innan þessa tíma enda tækniframfarir örar á sviðið ljósleiðaratækninnar.  Það er hins vegar svo að FARICE-1 strengurinn er byggður með tækni sem enn er í fullu gildi og hann er alls ekki úreltur né er vitað til þess þegar þetta er skrifað að það stefni í það á næstunni.  Vissulega er upphhaflegur endabúnaður hans úreltur en búið er að endurnýja FARICE-1 með nýjustu tækni (100G coherent tækni)  og flutningsgeta hans alveg sambærileg og ef byggður væri nýr strengur árið 2017 en nú árið 2020 eru nýir strengir um fjórfalt öflugri á hvert ljósleiðarapar auk þess sem fjöldi ljósleiðarapara er meiri en lagt var árið 2003.   Gagnaverarekendur sumir hverjir kalla eftir fjölbreyttum tengingum milli svæða/landa og í þeim hópi má finna aðila sem gera kröfur um að allt að fjórar mismumandi leiðir úr landi.  Ljóst er að vegna þessara krafna sé ástæða til að fjölga strengjum.  Þessu til viðbótar má nefna að sumir þessara mögulegu viðskiptavina vilja fá styttri leiðir til BNA.   Á endanum standa og falla verkefni sem þessi með tekjumöguleikum. 

Í janúar 2019 fékk Farice það verkefni fyrir hönd fjarskiptasjóðs að hefja undirbúning að nýjum sæstreng. Fjármagn fyrir botnrannsóknir liggur fyrir.  Verkefnið felst í því að finna landtökustaði á Íslandi og erlendis ásamt því rannsaka sjávarbotn og velja bestu leið.  Fyrsti áfangi botnrannsókna mun hefjast við Írlandsstrendur í ágúst 2020 með það að markmiði að leggja streng árið 2022.